Innlent

Vill kalla saman þing til að klára frumvarp um Drekasvæðið

Boði Logason skrifar
Tryggvi Þór Herbertsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins
Tryggvi Þór Herbertsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins
„Það var bara klúður hjá ríkisstjórninni að setja þetta ekki á dagskrá áður en þingi lauk í sumar," segir Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Hann hefur ásamt, Jóni Gunnarssyni og Gunnari Braga Sveinssyni, óskað eftir að boðað verði sem fyrst til fundar í iðnaðarnefnd til að ræða stöðu útboðsmála vegna olíuleitar á Drekasvæðinu. Þeir óska eftir að orkumálastjóri og fulltrúar iðnaðarráðuneytisins mæti á fundinn.

Tryggvi segir að málið sé eitt af þremur mikilvægum málum sem verði að ljúka sem fyrst, en hin frumvarpin fjalla um hluta atvinnuleysisbóta og séreignalífeyrissparnaðinn. Hann telur ástæðu til að kalla saman þing og vill gera það helst sem allra fyrst. Það er forseti Alþingis, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, sem ákveður hvort að þing verður kallað saman.

Hann segir að það hafi gleymst að fara með málið í gegnum þingið áður en því lauk um miðjan júní en hann segir að það hafi það hafi ríkt mikil samstaða um að breyta lögum um olíuleit sem allra fyrst. „Orkumálastjóri hefur lýst miklum áhyggjur yfir því að þetta tefji útboðið á útboðinu á Drekasvæðinu. Þeir eru búnir að vera í gríðarlega miklum undirbúningi og voru meðal annars á ráðstefnu úti í Noregi núna í byrjun júní, þar sem var verið að kynna þetta útboð og annað slíkt. Þá var mikill áhugi fyrir því, að hans sögn," segir Tryggvi.

Hann segir að þingmennirnir vilji fá gott yfirlit frá orkumálastjóra og iðnaðarnefnd um málið og sjá „hversu miklu máli þetta skiptir þessi lagasetning. Hvort það nægi að þetta verði sett í lög í september eða hvort við ætlum að kalla saman þingið út af þessu og hinum málunum tveimur."

Hann segir alveg ljóst að málið fari í gegnum þingið þegar það kemur aftur saman í september en telur að kalla eigi þing saman sem allra fyrst. „Ég tel að það sé full ástæða til að kalla saman þingið út af þessum málum og ástandinu og þjóðfélaginu eins og það er - ég tel að það sé engin sérstök ástæða að þingið sé í fríi."

Áður en þingi lauk töluðu Sjálfstæðismenn mikið um kvótafrumvarpið og mikill tími fór í að ræða það. Ríkisstjórnin tókst ekki að koma málinu í gegnum þingið áður en því lauk.

Aðspurður hvort að Sjálfstæðismenn geti kannski kennt sjálfum sér um að frumvarpið um útboðsmál á Drekasvæðinu hafi ekki farið í gegn vegna þess að þeir töluðu mikið síðustu dagana áður en þingi lauk, segir Tryggvi að það hefði aðeins tekið hálftíma að koma frumvarpinu í gegn.

„Það er engin afsökun, í staðinn fyrir að hætta klukkan fjögur hefðum við hætt hálf fimm," segir hann að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×