Innlent

Tapar á hækkun tekjutengingar vaxtabóta

LPA skrifar
Konan segist hafa tapað á ákvörðun ríkisstjórnarinnar.
Konan segist hafa tapað á ákvörðun ríkisstjórnarinnar.
Reykvísk kona sem skuldar húsnæðislán segist hafa tapað á þeirri ákvörðun stjórnvalda að hækka tekjutengingu vaxtabóta - en bæta tímabundið við vaxtaniðurgreiðslu. Munurinn slagar upp í sólarlandaferð fyrir einn. Hún telur aðgerðina brjóta gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og hefur kvartað til Umboðsmanns Alþingis. 

Tæpur helmingur, eða 46%, heimila landsins fékk vaxtaniðurgreiðslu um mánaðamótin. Alls tæplega 97 þúsund einstaklingar. Margir hafa eflaust fagnað þessari greiðslu - sem er eitt af þeim úrræðum sem ríkisstjórnin kynnti í lokasvari sínu til skuldugra heimila í desember. Niðurgreiðslan er tímabundin.

Ekki urðu þó allir kátir. Einn þeirra er kona sem kveðst hafa greitt í fyrra 930 þúsund krónur í vexti af láni sem hvílir á heimili þeirra hjóna. Hún er ósátt, og hefur kvartað til Umboðsmanns Alþingis, vegna þess að samhliða hinni nýju vaxtaniðurgreiðslu var tekjutenging gömlu vaxtabótanna hækkuð milli jóla og nýárs og tók gildi nokkrum dögum síðar. Það þýðir fyrir þessi hjón að í stað þess að fá 217 þúsund krónur í vaxtabætur, eins og þau hefðu fengið ef engu hefði verið breytt, fá þau nú 20 þúsund í vaxtabætur og 116 þús. krónur í vaxtaniðurgreiðslur á árinu, samanlagt 136 þúsund krónur. Munurinn er 83 þúsund krónur - sem slagar upp í 10 daga sólarlandaferð fyrir einn.

Konan, sem er lögfræðingur, segir ekkert athugavert við að hækka tekjutengingu vaxtabóta - hins vegar megi ekki hringla með slíkar bætur afturvirkt. Hún rökstyður kvörtun sína til umboðsmanns með því að vaxtabætur séu eign sem myndist jafnt og þétt yfir skattaárið 2010 til greiðslu á þessu ári. Með því að breyta lögum í lok desember og hækka tekjutenginguna strax í upphafi árs séu stjórnvöld því að brjóta eignaréttarákvæði stjórnarskrár. Ekki hefur borist formlegt svar frá Umboðsmanni - en konan telur þessa aðgerð ekki í samræmi við loforð ríkisstjórnar um að aðstoða skuldug heimili, hún hafi búist við meiri hjálp en ekki minni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×