Innlent

Fimm vilja grafa Vaðlaheiðargöng

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar
Fimm hafa lýst yfir áhuga á að grafa Vaðlaheiðargöng og byggja tilheyrandi vegskála. Fleiri gætu bæst í hópinn, en frestur til að skila inn gögnum rann út síðdegis í gær

Fyrirtæki sem hafa áhuga á að ráðast í þessa stórframkvæmd að grafa Vaðlaheiðargöng, byggja vegskála og leggja tilheyrandi vegi, höfðu frest fram til klukkan fjögur í gær til að taka þátt í forvali Vegagerðarinnar. Fimm hafa þegar skilað inn gögnum, þar af eitt íslenskt fyrirtæki. Hin fjögur eru samvinnuverkefni erlendra og íslenskra fyrirtækja. Allt eins er reiknað með að fleiri skili inn gögnum, því þeir sem sendu sín gögn í pósti með póststimpli fyrir klukkan fjögur í gær teljast hafa skilað á réttum tíma.

Vaðlaheiðargöng verða ekki einkaframkvæmd líkt og Hvalfjarðargöng, því hlutafélagið sem stofnað var um Vaðlaheiðargöng er að meirihluta, eða 51 prósenti, í eigu ríkisins. Einkahlutafélagið Greið leið á 49%. Göngin verða þau breiðustu sem hér hafa verið grafin og verða heldur lengri en Hvalfjarðargöngin, eða 7,2 kílómetrar. Áætlaður kostnaður er 10,4 milljarðar.

Að sögn G. Péturs Matthíassonar, upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar, verður nú farið yfir gögnin og þau fyrirtæki sem uppfylla öll skilyrði valin til að gera tilboð í framkvæmdina. Útboðið gæti farið fram í haust, ágúst eða september, segir G. Pétur og því gætu menn farið að grafa sig inn í Vaðlaheiðina strax seinni hluta ársins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×