Innlent

Hlýindi breyta fuglalífinu

Glóbrystingur, bókfinka og glókollur Þetta eru dæmi um fugla sem hafa komið hingað til lands á síðustu árum. Sá síðastnefndi verpir reglulega hér.Myndir/Gva, Brynjúlfur Brynjólfsson, Sigmundur ásgeirsson
Glóbrystingur, bókfinka og glókollur Þetta eru dæmi um fugla sem hafa komið hingað til lands á síðustu árum. Sá síðastnefndi verpir reglulega hér.Myndir/Gva, Brynjúlfur Brynjólfsson, Sigmundur ásgeirsson
Bókfinka, fuglar, smáfuglar
Ef fram fer sem horfir gætu loftslagsbreytingar haft í för með sér miklar sviptingar í fuglalífi á næstu árum. Nýjar fuglategundir gætu bæst við en aðrar horfið. Þetta segir Kristinn Haukur Skarphéðinsson, dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.

Kristinn Haukur segir fuglalíf á Íslandi hafa tekið þó nokkrum breytingum undanfarin ár. Um 200 ár eru síðan byrjað var að taka saman yfirlitsrit yfir íslenska fugla. Um 360 tegundir hafa komið hingað til lands en aðeins 75 þeirra verpa hér að staðaldri. Tæplega fimmtíu nýjar fuglategundir hafa reynt að verpa hér einu sinni eða oftar en aðeins fimmtán þeirra hafa náð fótfestu. Sílamávurinn er sennilega þekktasta dæmið en hann kom hingað fyrst um 1930. Örfáar fuglategundir hafa dáið út hér á landi, frægust þeirra er geirfuglinn.

„Sumum fuglategundum virðist fækka mjög mikið, til dæmis bjargfugli sem heitir stuttnefja og er skyldur langvíu,“ segir Kristinn Haukur. Ef hlýnunin heldur áfram gætu gróðurbelti færst um 800 kílómetra í norður á næstu fimmtíu árum. „Þá verður Ísland komið enn lengra inn í barrskógarbeltið, sem þýðir að hér skapast skilyrði fyrir marga tugi nýrra tegunda. Aðrar þyrftu hins vegar að láta undan,“ segir Kristinn Haukur.

Skrautlegri fuglar gætu þá gert vart við sig. „Þá koma skógarfuglar sem syngja kannski betur en þeir skógarfuglar sem við höfum. Fuglar sem við höfum núna, til dæmis hrafn og snjótittlingur, eru gleðigjafar allt árið. Snjótittlingur mun örugglega láta undan ef hlýnunin heldur áfram. Það er angurvært tístið í snjótittlingnum sem skemmtir fólki yfir dimma vetrardaga, svo það yrði skammgóður vermir af þessum söngfuglum,“ segir Kristinn Haukur. „Þetta er eins og að fá stórhljómsveit sem spilar einu sinni en fer svo burt, á meðan við erum með fína hljómsveit sem spilar allan veturinn.“ - kh

Glókollur, fugl, smáfugl



Fleiri fréttir

Sjá meira


×