Innlent

Þurfum að vanda betur orð og athafnir

Gengið var til guðsþjónustu í Dómkirkjunni klukkan sex í gær áður en prestastefna 2011 var formlega sett í hátíðarsal Háskóla Íslands um kvöldið. FRéttablaðið/Valli
Gengið var til guðsþjónustu í Dómkirkjunni klukkan sex í gær áður en prestastefna 2011 var formlega sett í hátíðarsal Háskóla Íslands um kvöldið. FRéttablaðið/Valli
„Sú mikla skerðing sóknargjalda og framlaga sem þjóðkirkjan hefur þurft að mæta frá hruni er farin að hafa veruleg áhrif á þjónustu kirkjunnar um allt land. Það er mikið áhyggjuefni,“ sagði séra Karl Sigurbjörnsson biskup í gærkvöld í setningarræðu á prestastefnu 2011.

Karl sagði sóknargjöld hafa verið skert um tuttugu prósent frá bankahruninu. Við bætist fækkun gjaldenda sem orðin sé tilfinnanleg í sumum sóknum. „Vegna hagræðingarkröfu ríkisins hefur kirkjan auk þess þurft að sæta umtalsverðri skerðingu á lögbundnum og samningsbundnum framlögum. Laun presta voru lækkuð að meðaltali um sex prósent árið 2009,“ sagði biskup og kvað erfitt að sjá fyrir sér að lengra yrði gengið í niðurskurði hjá þjóðkirkjunni. „Ef svo fer sem horfir þurfum við á næsta ári að mæta niðurskurði sem nemur á þriðja hundrað milljónum króna. Það heldur sannarlega fyrir mér vöku.“

Þá sagði séra Karl að fækkun sóknarbarna þjóðkirkjunnar ylli honum líka áhyggjum. Margir spyrðu hvers vegna þeir ættu að tilheyra kirkjunni. „Því þurfum við að svara. Það verður ekki hvað síst best gert með því að við vöndum enn meir öll okkar orð og athafnir og gerum enn betur það sem við gerum best,“ sagði biskup við gesti á prestastefnunni.- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×