Erlent

Búist við að Obama tilkynni um kosningaherferð sína eftir helgi

Barack Obama er ekkert að tvínóna við hlutina. Kosningaherferðin hefst á mánudaginn.
Barack Obama er ekkert að tvínóna við hlutina. Kosningaherferðin hefst á mánudaginn.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, mun tilkynna formlega á mánudaginn að kosningaherferð hans sé hafin. Í kjölfarið mun hann halda röð áberandi fjáröflunarsamkomna til þess að safna fé í baráttu sína.

Það var The Wall Street Journal sem greindi frá þessu í dag en fregnirnar hafa farið nokkuð öfugt ofan í samflokksmenn hans í Demókrataflokknum, en forsetinn á í deilum við þingflokk Repúblikana, um fjárlög næsta árs, og óttast demókratar að barátta hans gæti mótast af þeim átökum.

Repúblikana nýttu einnig tækifærið til þess að hnýta í forsetann og sögðu hann of upptekinn af því að vera endurkjörinn til þess að huga að fjárhagi Bandaríkjanna. Þannig gagnrýnir einn af talsmönnum Repúblikanaflokksins Obama fyrir að einbeita sér að endurkjöri á meðan milljónir Bandaríkjamanna eru atvinnulausir og versta efnahagskreppa seinni ára blasir við þjóðinni.

Starfsmenn Hvíta hússins fullyrða hinsvegar að tímatafla forsetans verði ekki einokuð af kosningabaráttunni. Líklegt þykir að forsetinn muni ekki spýta almennilega í lófana fyrr í vor þegar Repúblikanaflokkurinn tilkynnir formlega forsetaefni sitt.

Þrátt fyrir að Obama verði fyrstu til þess að tilkynna formlega um upphaf kosningabaráttunnar þá eru nokkrir kandídatar Repúblikanaflokksins þegar byrjaðir að safna fé með það að markmiði að flokkurinn útnefni þá sem forsetaefni.

Sá sem er lengst komin í söfnuninni er Tim Pawlenty, fyrrverandi fylkisstjóri Minnesota.

Kosningarnar fara fram seinni hluta árs 2012 en kosningabaráttan er yfirleitt mjög löng og ströng þar í landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×