Erlent

Ríkin reyndu ekki að semja

Dómararnir sextán ganga inn í réttarsalinn í gær. Fulltrúar Georgíu og Rússlands fylgdust með.fréttablaðið/ap
Dómararnir sextán ganga inn í réttarsalinn í gær. Fulltrúar Georgíu og Rússlands fylgdust með.fréttablaðið/ap
Alþjóðadómstóllinn í Haag hefur vísað frá máli Georgíu gegn Rússlandi vegna þjóðernishreinsana í tveimur héruðum Georgíu, Abkasíu og Suður-Ossetíu.

Meirihluti dómara taldi að dómstóllinn hefði ekki lögsögu í málinu vegna þess að ríkin tvö hefðu ekki reynt að semja í deilunni áður en farið var með hana fyrir dómstóla.

Georgíustjórn lagði fram kvörtun undir lok fimm daga stríðsátaka árið 2008 og hélt því fram að rússnesk yfirvöld og sveitir málaliða hefðu á tveimur áratugum myrt þúsundir Georgíumanna í héruðunum tveimur og hrakið um þrjú hundruð þúsund þeirra á flótta.

Stríðið hófst 7. ágúst 2008 og því lauk með vopnahléi 12. ágúst. Rússar hafa einir ríkja viðurkennt sjálfstæði héraðanna tveggja.

Fulltrúi Georgíustjórnar sagðist vonsvikinn vegna frávísunarinnar og útilokaði ekki að nýtt mál yrði höfðað seinna. Utanríkisráðherra Rússlands var hins vegar ánægður og sagði niðurstöðuna í samræmi við málflutning Rússa.

Málinu er því lokið á vettvangi Alþjóðadómstólsins en hjá Alþjóðaglæpadómstólnum er verið að rannsaka bæði ríkin vegna gruns um stríðsglæpi í fimm daga stríðinu.

- þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×