Innlent

Afkoma ríkisins betri en ætlað var

Fjármálaráðherra er hér með fjárlög síðasta árs. Afkoma ríkisins reyndist betri en þar var gert ráð fyrir. Fréttablaðið/GVA
Fjármálaráðherra er hér með fjárlög síðasta árs. Afkoma ríkisins reyndist betri en þar var gert ráð fyrir. Fréttablaðið/GVA
Greiðsluhalli ríkisins fyrstu ellefu mánuði nýliðins árs er heldur minni en ráð var fyrir gert í fjárlögum. Í þeim var gert ráð fyrir rúmlega 105 milljarða króna halla, en þess í stað reyndist handbært fé frá rekstri neikvætt um 72,7 milljarða króna. Árið áður var hallinn á sama tíma 122,8 milljarðar, að því er fram kemur í nýjum tölum fjármálaráðuneytisins.

Fram kemur að tekjur ríkissjóðs fyrstu ellefu mánuði ársins 2010 hafi verið 44,2 milljörðum króna hærri en á fyrstu ellefu mánuðum fyrra árs um leið og gjöld hafi dregist saman um 12,6 milljarða. Alls námu innheimtar tekjur ríkissjóðs 411,8 milljörðum, sem er 43,9 milljarða króna aukning frá árinu áður og 22,2 milljörðum meira en ráð var fyrir gert.

„Hið jákvæða frávik stafar einkum af hagnaði vegna svonefnds Avenssamkomulags, sem ekki var reiknað með í fjárlögum. Þá voru skatttekjur og tryggingagjöld 1,1 milljarði króna yfir tekjuáætlun fjárlaga og námu 361,2 milljörðum króna frá janúar til nóvember,“ segir í tilkynningu fjármálaráðuneytisins.

Bókfærður tekjuskattur einstaklinga var 80,4 milljarðar króna, tekjuskattur lögaðila 12,7 milljarðar og virðisaukaskattur, sem er stærsti hluti veltuskattanna, nam 110 milljörðum króna á fyrstu ellefu mánuðum ársins.- óká



Fleiri fréttir

Sjá meira


×