Fótbolti

Benzema: Jose Mourinho er búinn að breyta mér í stríðsmann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Karim Benzema og Cristiano Ronaldo.
Karim Benzema og Cristiano Ronaldo. Mynd/Nordic Photos/Getty
Karim Benzema, franski framherjinn hjá Real Madrid, hrósar þjálfaranum Jose Mourinho í nýlegu viðtali við RTL og segir portúgalska þjálfarann hafi hjálpað sér að verða betri leikmaður á því eina og hálfa ári sem Mourinho hefur setið í þjálfarastólnum á Santiago Bernabéu.

„Ég áttaði mig á því að Mourinho vildi ekki að ég breytti um leikstíl heldur vildi hann aðeins að ég gæfi meira af mér í leikina. Núna kem ég inn á völlinn eins og stríðsmaður," sagði Karim Benzema.

„Mourinho er mjög náinn leikmönnum sínum og hann er alltaf til taks fyrir okkur alla. Sigurviljinn hans smitar út frá sér því hann er alltaf að leita að leiðum til að ná árangri. Ég veit ekki hvernig hann fer nákvæmlega að því en hann fær alla alltaf til að hlusta á sig," sagði Benzema.

Benzema fann sig ekki í fyrstu hjá Real Madrid sem keypti hann sumarið 2009 frá Olympique Lyonnais. Mourinho hefur hinsvegar veðjað á Benzema með góðum árangri. Benzema hefur skorað 6 mörk í 9 leikjum í spænsku deildinni á þessu tímabili og Real Madrid er með þriggja stiga forskot á toppnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×