Erlent

Staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni

Guðbjörg Helgadóttir skrifar
Staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni umdeild í Washingtonfylki
Staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni umdeild í Washingtonfylki
Washingtonríki mun hugsanlega í framtíðinni leyfa staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni ef marka má frumvarp sem lagt hefur verið fram á ríkisþinginu í Olympia.

Mikil siðferðisleg umræða hefur verið um staðgöngumæðurn í hagnaðarskyni er slíkt er nú þegar leyft í nokkrum fylkjum Bandaríkjanna en með skilyrðum þó. Í frumvarpinu er lagt til að með samningi milli staðgöngumóður og verðandi foreldra verði skýrt ákvæði þar sem fram kemur að "sanngjarnar bætur“ í formi lögfræði- og lækniskostnaðar verði greiddar staðgöngumóður.

Þingmenn hafa misjafnar skoðanir á frumvarpinu og telja andstæðingar þess að það leiði hugsanlega til verksmiðjuframleiðslu á börnum. Ekki sé réttlætanlegt að vel efnaðir einstaklingar geti leigt líkama kvenna sem hugsanlega eiga við félagslegar fatlanir að stríða og kæmu að öllum líkindum úr lægri stéttum þjóðfélagsins.

Auk þess stuðli staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni að viðskiptamöguleikum með þeim afleiðingum að hefðbundnar hugmyndir um tengsl milli móður og nýfædds barns eru orðnar aðrar og nýjar. Slík þróun sé hörmuleg. Nái frumvarpið fram að ganga telja talsmenn þess aftur á móti, það hjálpi einstaklingum sem ekki eiga kost á barneignum með eðlilegum hætti.

"Fólk hefur þurft að leita til annarra fylkja til að nýta sér "þjónustu“ sem þessa, því er betra að hún sé hér í fylkinu og undir eftirliti“ er haft eftir einum talsmanni frumvarpsins. Frumvarpið hljóðar upp á að staðgöngumóðir skuli hafa náð tuttugu og eins árs aldri og hafi fætt að minnsta kosti eitt barn áður.

Auk þess þarf hún að hafa undirgengist líkamlegt og andlegt heilsufarspróf, búa að heilsu- og líftryggingu og að lokum, hafa gefið skriflegt samþykki fyrir staðgöngunni. Verðandi foreldrar þurfa einnig að uppfylla ákveðin skilyrði sem felast í læknisfræðilegum meðmælum um réttmæti staðgöngunnar, framvísun á geðheilsuvottorðum og félagslegri ráðgjöf.

Einnig er lagt til að meðgangan og þar með barnið verði ekki skattlagt þar sem staðgöngumóðirin sé að leggja fram þjónustu en ekki vöru né framleiðslu. Frumvarpið hefur nú verið lagt fram til þingsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×