Íslenski boltinn

Daníel Laxdal: Kominn tími á þetta

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Daníel Laxdal fyrirliði Stjörnunnar fór fyrir sínum mönnum í Garðabænum í kvöld. Hann var sáttur með fyrsta sigurinn á heimavelli í sumar.

„Já það var kominn tími á þetta. Við höfum verið sterkir á heimavelli. Gott að fara með þrjú stig inn í hléið."

Boltinn var mikið í loftinu og lítið um fallegt spil manna á milli.

„Það var mikil barátta og bæði lið vildu þessi þrjú stig. Við vildum þetta meira og börðumst meira."

Stjarnan komst tveimur mörkum yfir í fyrri hálfleik en fékk svo á sig mark skömmu fyrir hlé sem galopnaði leikinn.

„Þetta er svolítið oft svona með okkur. Mér fannst við eiga að klára þennan leik með því að setja þriðja markið. Svo sofnum við á verðinum þegar er að koma að hálfleik og þegar leikurinn er að klárast. Við förum yfir þetta í fríinu."

Daníel segir hafa verið stress að halda fengnum hlut vitandi að Grindvíkingar væru með vindinn í bakið.

„Við vissum að þeir kæmu brjálaðir í seinni hálfleikinn. Við börðumst með hjartanu og vorum með stuðningsmennina með okkur. Þá var þetta aðeins auðveldara."

Tuttugu daga sumarfrí er framundan hjá úrvalsdeildarliðunum.

„Þetta verður eitthvað öðruvísi. Við fáum helgarfrí og svo bara æfa meira. Verða betri en hinir."

Daníel segir skipta miklu máli að vinna síðasta leik fyrir hléið.

„Já klárlega. Þetta var mjög mikilvægt fyrir alla í klúbbnum. Komast í þessi ellefu stig og vera í efri hlutanum. Við förum sáttir í fríið."

Hann segir liðið ætla að halda sér í efri hlutanum.

„Það er miklu skemmtilegra en að vera í botnbaráttunni."


Tengdar fréttir

Umfjöllun: Fyrsti sigur Stjörnunnar í Garðabæ í sumar

Stjörnumenn fögnuðu fyrsta heimasigri sínum í sumar þegar þeir unnu 2-1 sigur á Grindavík í 7. umferð Pepsi-deildar karla í kvöld. Stjarnan er þar með komið með 11 stig en Stjörnumenn fóru upp í fjórða sætið með því að krækja í þessi þrjú stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×