Innlent

Mosi gæti virkað í baráttunni gegn krabbameini og malaríu

Karen D. Kjartansdóttir skrifar

Líkur eru á að íslenskur mosi búi yfir efnum sem gætu virkað í baráttu gegn krabbameini og malaríu. Lyfjafræðingar sem rannsaka þessa jurt líkja henni við fjársjóðsleit.

Mikill og vaxandi áhugi er á hugsanlegum lækningarmætti íslenskra jurta og lífvera hérlendis og erlendis.

Sesselja Ómarsdóttir, dósent í lyfja- og efnafræði náttúruefna við Háskóla Íslands, er meðal þeirra sem hefur fengið styrki til að vinna að rannsóknum á þeim. En þær miða einkum að kanna hvort sjávarhryggleysingar úr íslenskum sjó hafi að geyma eitthvað sem kynni að duga í baráttu við illkynja sjúkdóma.

„Við erum tiltölulega nýfarin af stað með rannsóknir á sjávarhryggleysingjum en við vitum að þar er að finna gríðarlegt magn af lífvirkum efnum. Rannsóknir á þeim hefjast fyrir alvöru í kringum 1970 en þær hafa flestar verið gerðar á lífverum sem lifa í heitum sjó þannig að svæðið í kringum Ísland er óplægður akur, ef svo má segja," segir Sesselja.

Hún segist hafa orðið vör við mikinn áhuga erlendra fræðimanna á þessum athugunum. "Við erum í góðu samstarfi við vísindamenn erlendis og það helgast mjög af því að hérna er spennandi náttúra og við fáum oft fyrirspurnir frá erlendum aðilum um að fá íslenskar náttúruafurðir til rannsóknar."

Meðal nemanda Sesselju er Sophie Jensen frá Svíþjóð sem segir íslenska náttúru heilla mjög. En meðal þess sem hún kannar er mosi sem hún segi hreint ekki óspennandi lífveru.

"Mosi er ein af frumstæðustu plöntum á plánetunni og telja sumir að hann hafi verið fyrsta plantan sem skreið upp á land þótt hann vaxi enn á mjög votum svæðum og Ísland er þar með alveg kjörinn staður fyrir hann. En út af því hvað hún er frumstæð og hefur lifað af í allar þessar milljónir ára er áhugavert að skoða hvaða efni hún framleiðir til að lifa af og hvernig hún ver sig gegn snýklum. Það hefur komið í ljós að hún framleiðir eitthvað áhugavert sem ég er prófa gegn krabbameinsfrumum og gegn malaríusnýklinum," segir Sophie.

Sesselja segir þær niðurstöður sem þegar hafa komið fram lofa mjög góðu en biður fólk að hafa það í huga að tilraunirnar séu enn bundnar við tilraunaglös og því ekki hægt að yfirfæra niðurstöðurnar á menn strax.

Sesselja skellir upp úr þegar hún er spurð hvort fólk saki hana ekki stundum um kukl og segir að vinnubrögðin eigi ekkert skylt við slíkt. Hún minnir samt á að þriðjungur lyfja á rætur sínar í náttúrunni. Mjög góður og þverfaglegur rannsóknahópur hafi nú þegar myndast hér á landi í tengslum við plönturannsóknir. Það sé nauðsynlegt, til að mynda þurfi líffræðingar að koma að við plöntugreiningu, lyfjafræðingar við einangrun á einstaka efnum og svo sérfræðingar í lífvirkniprófum, á borð við sérfræðinga í krabbameinsfræðum eða ónæmisfræðum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×