Innlent

Ögmundur vill kjósa aftur til stjórnlagaþings

Heimir Már Pétursson skrifar
Ögmundur Jónasson.
Ögmundur Jónasson.

Innanríkisráðherra vill að kosið verði aftur til stjórnlagaþings. Það kemur honum á óvart hvað Hæstiréttur túlkar lögin um kosningar til þingsins þröngt.

Dómsmálaráðuneytið, sem nú heyrir undir innanríkisráðuneytið, ásamt Alþingi fór með undirbúning kosninga til stjórnlagaþings. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segir það ekki vera áfall fyrir embætti hans og ríkisstjórnina að Hæstiréttur ógilti kosningarnar með dómi í gær.

Ögmundur segir niðurstöðu Hæstaréttar hafa komið sér á óvart, að rétturinn hafi ákveðið að ógilda kosninguna vegna formgalla.

Staðreyndin sé að engin hafi haldið því fram aðúrslitin hefðu orðið með öðrum hætti ef framkvæmd kosninganna hefði verið önnur. Í innanríkisráðuneytinu sé verið að skoða hvað fór úrskeiðis og sömuleiðis muni landskjörstjórn fara yfir málið. Ögmundur segir að eftir sem áður standi sú krafa eftir að það verkefni verði leyst, að efnt verði til stjórnlagaþings.

Enginn hafi gert athugasemdir á Alþingi við frumvarpið um framkvæmd kosninganna. Menn hafi fyrst og fremst tekist á um það hvort halda ætti stjórnlagaþing yfirleittt og vægi þess við breytingar á stjórnarskránni. Nú sé mikilvægast að allir sem komu að undirbúningi og skipulagi kosninganna setjist niður og greini hvað fór úrskeiðis svo þau mistök endurtaki sig ekki.

Aðspurður hvort ekki verði að kjósa aftur segir Ögmundur: „Mér finnst það liggja í kortunum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×