Innlent

Uppsagnir hjá Kópavogsbæ - 70 milljónir sparast á ársgrundvelli

Skipulagsbreytingarnar voru samþykktar á bæjarstjórnarfundi í gær.
Skipulagsbreytingarnar voru samþykktar á bæjarstjórnarfundi í gær.
Töluverðar skipulagsbreytingar hjá stjórnsýslu Kópavogsbæjar voru samþykktar á bæjarstjórnarfundi í gærkvöld en í nýsamþykktri fjárhagsáætlun bæjarins er gert ráð fyrir því að talsverðum sparnaði verði náð með skipulagsbreytingum og hagræðingu í stofnunum og yfirstjórn bæjarins. Fækkað er um ellefu störf innan stjórnsýslunnar og munu tólf einstaklingar fá uppsagnarbréf þar sem í sumum tilfellum var um hlutastörf að ræða. Á meðal þess sem lagt er niður er starf sviðstjóra menningarsviðs, en Guðrún Pálsdóttir gegndi því starfi áður en hún var ráðin bæjarstjóri.

„Breytingarnar eru hluti af samstarfssamningi meirihlutans í bæjarstjórn Kópavogs en þar er kveðið á um einföldun í stjórnsýslu og fækkun nefnda. Breyttri stjórnsýslu er þannig ætlað að auka skilvirkni og stytta boðleiðir en jafnframt tekur hún mið af breyttum áherslum og verkefnum bæjarins í kjölfar efnahagshrunsins. Áhersla er lögð á að breytingarnar komi sem minnst niður á þjónustu við bæjarbúa," segir í tilkynningu frá Kópavogsbæ.

Þá segir að eftir breytingarnar verði starfsemi bæjarins skipt í fjögur svið í stað sex. Störfum í stjórnsýslu bæjarins fækkar um ellefu eða um tæplega tíu prósent. Samhliða hafa verið samþykktar breytingar á nefndum bæjarins og fækkar kjörnum fulltrúum í þeim um 30.

„Á ársgrundvelli eiga breytingarnar og önnur hagræðing innan stjórnsýslunnar að spara um 70 milljónir í rekstri bæjarins," segir einnig.

Stjórnendur bæjarins kynntu starfsmönnum fyrirhugaðar skipulagsbreytingar á starfsmannafundi eftir hádegi í gær og síðdegis lagði bæjarstjóri þær fram til umræðu og afgreiðslu í bæjarstjórn. Miðað er við að þær taki gildi um mánaðamótin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×