Innlent

Varað við fúskurum í tannhvíttun

Karen Kjartansdóttir skrifar
Formaður Tannlæknafélags Íslands varar fólk eindregið við því að fara til annarra en viðurkenndra sérfræðinga til að lýsa á sér tennurnar. Hann segir efnin sem notuð eru til að lýsa tennur mjög sterk og geta verið varasöm.

Undanfarin ár hefur verið vinsælt að láta lýsa í sér tennurnar. Tannlæknar hafa nær eingöngu séð um það en reglur Evrópusambandsins leyfa ekki sölu tannlýsingarefna til almennings sem innihalda meira en 0,1 af vetnisperoxíð en það er gegnir miklu hlutverki við að lýsa tennur.

Í tilkynningu frá Tannlæknafélaginu segir einnig að sambandið telji að slík meðferð eigi einungis að vera í höndum sérfræðinga enda geta efnin skaðað tannhold og valdið fólki miklum óþægindum ef ekki er rétt að málum staðið.

Sigurður Benediktsson, formaður tannlæknafélagsins, segist hafa orði var við, að fólk með litla eða enga menntun tengdri tannheilsu, bjóði upp á slíka meðferð. Þjónustan geti litið út fyrir að vera fagleg á yfirborðinu en sérfræðiþekking sé ekki til staðar. Hann hvetur fólk til að leita ekki til slíkra aðila heldur leita ráðgjafar hjá tannlækni um málið.

Landlæknir hefur eftirlit með allri heilbrigðisþjónustu og reynir að verja fólk fyrir ágangi fúskara. Hins vegar eru þau efni sem notuð eru við tannlýsingar skilgreind sem snyrtivara og fellur þetta mál því ekki undir verksvið hans þótt faglega þekkingu þurfi við meðhöndlun þessara efna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×