Erlent

Þess vegna færðu rúsínufingur

Allir kannast við það að eftir nokkra setu í heita pottinum fara fingur manns að krumpast og líkjast rúsínum. Bandaríska vísindaritið Nature hefur nú eftir sérfræðingi í taugalíffræði að fyrirbrigðið sé engin tilviljun heldur hafi það þróast í gegnum árþúsundin og hafi ákveðnu hlutverki að gegna.

Kenning Mark Changizi gengur þvert gegn eldri kenningum sem eru á þá leið að rúsinufingur myndist vegna þess að líkaminn dragi í sig vatn. Changizi telur hinsvegar að tilgangurinn sé annar, nefnilega sá að gefa okkur betra grip með puttunum við blautar aðstæður. Þannig virki hrukkurnar eins og mynstur á bíldekkjum og nái betra gripi á sleipu yfirborði.

Sérfræðingar eru þó ekki á einu máli um kenningar Changizi og XI Chen við Columbia háskóla heldur því fram að ástæðan fyrir hrukkunum sé einfaldlega sú að þegar fingurnir liggi í heitu vatni þá dragist æðarnar saman og þá krumpist skinnið.

Aðrir eru sammála Changizi og benda á að tilgáta Chen útskýri ekki hversvegna puttarnir krumpist í köldu vatni. Auk myndast hrukkurnar aðeins á fingrum og tám, en ekki um allan líkaman.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×