Erlent

Flugmönnum kennt um dauða forsetans

Lech Kaczynski var umdeildur stjórnmálamaður. Hann fórst ásamt 95 Pólverjum 10. apríl 2010.
Lech Kaczynski var umdeildur stjórnmálamaður. Hann fórst ásamt 95 Pólverjum 10. apríl 2010. Mynd/AP

Flugmálayfirvöld í Rússlandi fullyrða að flugmenn flugvélar Lech Kaczynski forseta Póllands sem fórst í apríl á síðasta ári hafi átt sökina. Þeir hafi tekið gífurlega áhættu með fyrrgreindum afleiðingum. Með forsetanum fórust María eiginkona hans og margir æðstu ráðamenn pólska hersins, hópur þingmanna ásamt seðlabankastjóra landsins. Alls voru 96 um borð í flugvélinni og komst engin þeirra lífs af.

Forsetaflugvélin var að koma frá Moskvu höfuðborg Rússlands þegar hún hrapaði skömmu fyrir lendingu í Smolensk, þar sem forsetinn og fylgdarlið hans ætlaði að vera við minningarathöfn um rúmlega 20 þúsund pólska liðsforingja sem Stalín fyrrverandi leiðtogi Sovétríkjanna lét myrða í upphafi seinni heimsstyrjaldarinnar.

Mikil þoka var við flugvöllinn og segja rússnesk flugmálayfirvöld að flugumferðarstjórn hafi ráðlagt flugstjóra flugvélarinnar að hætta við lendingu og snúa aftur annað hvort til Moskvu eða Minsk í Hvíta Rússlandi. Flugstjórinn ákvað engu að síður að reyna lendingu með fyrrgreindum afleiðingum.

Kaczynski var umdeildur stjórnmálamaður. En hann var áður borgarstjóri í Varsjá höfuðborg landsins og bróðir hans var þá forsætisráðherra. Þeir stofnuðu flokkinn Lög og réttur sem er yst til hægri í pólskum stjórnmálum og ákaflega þjóðernissinnaður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×