Erlent

Haraldur blátönn ýkti hlut sinn í sögu Danmerkur

Eftir því sem fornleifauppgreftrinum í Jelling í Damörku miðar áfram verður æ ósennilegra að Haraldur blátönn hafi verið sá konungur sem kristnaði Dani.

Á þekktum rúnasteinum í Jelling stendur að Haraldur blátönn hafi kristnað Dani. Fornleifafræðingar telja nú að Haraldur hafi látið rista þessar rúnir til að gera hlut sinn í sögu Danmerkur meiri en hann í rauninni var.

Í ítarlegri umfjöllun í Politiken um málið segir að fornleifafræðingar hafi komið niður á kristna gröf í Jelling sem hægt er að dagsetja árið 800 sem er töluvert áður en Haraldur blátönn yfirhöfuð fæddist. Þetta bendi til þess að kristni meðal Dana hafi verið stigvaxandi þróun og að þegar Haraldur komst til valda hafi Danir verið orðnir kristnir að stórum hluta. Jafnvel er talið að kristin trú hafi tekið að breiðast út meðal Dana þegar uppúr árinu 700.

Haraldur blátönn ríkti frá miðri tíundu öld og fram til 985 þegar hann dó. Því lítur út fyrir að Danir verði að endurskrifa sögubækur sínar sem fjalla um valdatíð þessa konungs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×