Erlent

Hópur háhyrninga vekur mikla athygli í Danmörku

Hópur háhyrninga sem sést hefur undan ströndum Danmerkur hefur vakið mikla athygli meðal Dana og eru fréttir um málið í öllum fjölmiðlum landsins.

Um er að ræða a.m.k. tíu fullvaxna háhyrninga og tvo kálfa en hópurinn sást í Vesturhafinu um 50 mílur undan ströndum Hanstholm. Það voru líffræðingar frá umhverfisrannsóknastofnuninni við háskólann í Árósum sem fundu háhyrningana í reglubundnu skoðunarflugi sínu yfir þessu hafsvæði.

Fram kemur í samtali við Ib Krag Petersen, einn af líffræðingunum, að um sé að ræða stærsta hóp háhyrninga sem sést hefur undan ströndum Danmerkur á síðustu áratugum. Raunar hefur aðeins sést tíu sinnum til háhyrninga við Danmörku á undanförnum 100 árum og þá hefur yfirleitt verið um stök dýr að ræða. Nefna má að tilkynnt var um háhyrning í Danmörku í fyrrasumar þegar einn slíkur sást svamla undir Stórabeltisbrúnni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×