Innlent

Sprenging í frönsku kjarnorkuveri

Sjúkraþyrla við kjarnorkuverið í morgun.
Sjúkraþyrla við kjarnorkuverið í morgun. Mynd/AFP
Einn lést og þrír særðust þegar sprenging varð í kjarnorkuveri í Frakklandi í morgun. Í fyrstu var talin hætta á að geislavirk efni myndu leka út en svo varð ekki, að sögn franskra stjórnvalda.

Það var rétt fyrir klukkan tíu í morgun sem sprengingin varð eftir að eldur kviknaði í geymslu fyrir kjarnaúrgang í Marcoule kjarnorkuverinu nálægt Nimes í suðurhluta Frakklands.

Samkvæmt frásögn breska ríkisútvarpsins framleiðir verksmiðjan MOX eldsneyti sem notað er til að endurvinna plutonium úr kjarnorkuvopnum en þar eru ekki kjarnaofnar.

Forsvarsmenn verksmiðjunnar segja slysið vera iðnaðarslys en ekki kjarnorkuslys en í fyrstu var óttast að geislavirkt efni myndi leka út í andrúmsloftið í kjölfar sprengingarinnar. Það reyndist hins vegar ekki vera og varð enginn þeirra særðu fyrir geislun. Einn er hins vegar látinn og þrír særðir eftir sprenginguna þar af einn alvarlega.

Kjarnorkuverksmiðjan í Marcoule var opnuð árið 1955 og er ein af elstu kjarnorkuvinnslum Frakklands.  58 kjarnaofnar eru í Frakklandi og hafa þeir allir verið prófaðir eftir kjarnorkuslysið sem varð í Fukushima í Japan í kjölfar jarðaskjálftans fyrir hálfu ári síðan.

75 prósent af rafmagni Frakklands kemur frá kjarnorku og hefur ríkið nýlega tilkynnt að það ætli að leggja milljarð evra í kjarnorkuiðnað landsins þar á meðal rannsóknir á öryggismálum ólíkt nágrannalöndum sem ætla sér að draga úr kjarnorkuvinnslu á komandi árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×