Erlent

Óttast að ný borgarastyrjöld brjótist út

Mynd af forsætisráðherra Risastór mynd af Saad Hariri, sem hefur verið forsætisráðherra síðan 2009 en missti þingmeirihluta sinn í síðustu viku.nordicphotos/AFP
Mynd af forsætisráðherra Risastór mynd af Saad Hariri, sem hefur verið forsætisráðherra síðan 2009 en missti þingmeirihluta sinn í síðustu viku.nordicphotos/AFP
Stuðningsmenn Hezbollah-samtakanna söfnuðust saman á nokkrum stöðum í Beirút, höfuðborg Líbanons, í gær, daginn eftir að fyrsta ákæran var lögð fram hjá Alþjóðlega sakadómstólnum í Haag vegna morðsins á Rafik Hariri, fyrrverandi forsætis­ráðherra.

Talið er líklegt að einhverjir liðsmenn Hezbollah séu nefndir á nafn í ákæruskjalinu, en efni þess verður ekki gert opinbert nema dómstóllinn meti það nægilega rökstutt, sem verður ekki ljóst fyrr en eftir nokkrar vikur.

Samtökin njóta mikils fylgis í Líbanon og hafna því algerlega að hafa átt nokkurn hlut að morðinu, sem framið var í febrúar árið 2005. Hariri lést ásamt 22 öðrum þegar flutningabifreið full af sprengiefnum sprakk við Miðjarðarhafsströndina.

Hezbollah-samtökin, sem njóta stuðnings bæði sýrlenskra og íranskra stjórnvalda, segja málatilbúnaðinn runninn undan rifjum Ísraels og Bandaríkjanna. Réttarhöldin verði því aldrei annað en sýndarréttarhöld.

Margir óttast að þau verði til þess að nú verði efnt til fjöldamótmæla og hætta sé á nýrri borgarastyrjöld í þessu stríðshrjáða landi, tveimur áratugum eftir að langvinnu borgarastríði lauk. Harðvítug átök brutust einnig út milli sjíamúslima og súnnía árið 2008.

Þegar fréttir bárust af liðssöfnuði Hezbollah-manna tóku margir foreldrar í höfuðborginni Beirút börn sín úr skólum. Nokkrum skólum var lokað, en þegar mannfjöldinn hafði dreift sér á ný bárust tilkynningar um að þeir yrðu starfandi í dag.

Saad Hariri, sonur hins myrta og arftaki hans á stóli forsætisráðherra landsins, hefur neitað að verða við kröfum frá Hezbollah um að hafna afskiptum dómstólsins.

Þessi afstaða hans varð til þess að ellefu ráðherrar Hezbollah sögðu sig úr ríkisstjórn landsins í síðustu viku, með þeim afleiðingum að hún missti meirihluta sinn. Stjórnin átti að tryggja frið í landinu með því að Hezbollah væri í stjórn með þeim stjórnmálaöflum, sem þiggja stuðning frá Bandaríkjunum og Sádi-Arabíu.

Daniel Bellemer, saksóknari í málinu, hvetur Líbana til að bíða átekta. Ákæran sem hann lagði fram verður tekin til skoðunar hjá dómstólnum og metið hvort nægar sannanir séu fyrir hendi til þess að byggja málaferli á henni. gudsteinn@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×