Erlent

Neitar að hafa ætlað að myrða skopmyndateiknarann

Kurt Westergaard skopmyndateiknari
Kurt Westergaard skopmyndateiknari
Maðurinn sem braust inn til skopmyndateiknarans Kurt Westergaard fyrir ári síðan neitaði fyrir rétti í Árósum í dag að hafa ætlað að myrða teiknarann. Hann er ákærður fyrir tilraun til manndráps. Hann játaði þó að hafa brotist inn til hans.

Kurt Westergaard komst fyrst í fréttirnar árið 2005 þegar hann teiknaði eina af hinum umdeildu teikningum af Múhameð spámanni í Jótlandspóstinum. Fjölmargar líflátshótanir bárust honum og margir múslimar hafa verið handteknir í Danmörku grunaðir um að ætla að myrða Westergaard.

Maðurinn sem braust inn til hans, heitir Mohamed Geele og er tuttugu og níu ára Sómali. Hann braust inn til Westergaard vopnaður exi á nýársdag í fyrra þegar barnabarn hans var í heimsókn hjá honum.

Hann náði að forða sér inn í herbergi með barnabarnið og hringdi á lögregluna sem kom aðeins nokkrum mínútum síðar. Lögreglan skaut á manninn og særði hann. Hann var síðar handtekinn og hefur verið í haldi lögreglu síðan.

Í dag var mál hans svo tekið fyrir. Eins og fyrr segir, neitaði hann að hafa ætlað að myrða Westergaard og hafnaði ásökunum um hryðjuverk. Hann er ákærður fyrir tilraun til manndráps og á yfir höfði sér allt að lífstíðarfangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×