Erlent

Fréttaskýring: Tími uppgjörs í Arabaheiminum

Friðrik Indriðason skrifar

Frá Jemen til Egyptlands loga mótmæli í Mið-Austurlöndum og Norður Afríku. Tími uppgjörs er komin og þykir um margt minna á þegar Berlínarmúrinn féll 1989 og kommúnistar hrökkluðust frá völdum í Austur-Evrópu.

Mótmælin í Egyptlandi hafa vakið mesta athygli umheimsins enda er um fjölmennustu Arabaþjóðina að ræða með íbúatölu sem er vel yfir 80 milljónir manna. Dagar Hosni Mubarak forseta landsins í embætti eru taldir.

Dómínókubbarnir byrjuðu að falla í nágrannaríkinu Túnis þar sem forsetinn og fjölskylda hans flúðu til Saudi Arabíu með gullforða landsins í farteskinu.

Eftir að mótmælin hófust svo í Egyptalandi hafa mótmæli og uppþot orðið í Jemen, Jórdan, Alsír, Líbanon, Oman og Sýrlandi. Hvað Alsír og Jórdan varðar hafa mótmælin frekar beinst gegn hækkandi matvælaverði en stjórnvöldum.

Þó gerðu mótmæli í Jórdan konung landsins svo taugaveiklaðann að hann rak forsætisráðherra sinn, lofaði endurbótum á stjórnkerfinu og setti þak á matvælaverð.

Í Sýrlandi er almenningur hvattur til að taka þátt í mótmælum á götum úti í dag og á morgun. Svipað og í Egyptlandi er boðað til mótmælanna í gegnum netsíður eins og Facebook.

Netið hefur gengt lykilhlutverki í mótmælum þessum í Arabaheiminum því aðrir miðlar eru yfirleitt undir öflugu eftirliti stjórnvalda. Á liðnu ári hefur netnotkun aukist hlutfallslega mest í Arabalöndum af öllum löndum heimsins. Hafa nú 88 milljónir Araba aðgang að netinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×