Erlent

Vilja jafnrétti fyrir breskar prinsessur

Óli Tynes skrifar
Vilhjálmur og Kate.
Vilhjálmur og Kate.

Breskir þingmenn vilja breyta erfðalögum krúnunnar þannig að dætur sem Vilhjálmur erfðaprins og Kate Middleton hugsanlega eignast njóti jafnréttis á við hugsanlega syni. Þingmaðurinn Keith Vaz sem mælir fyrir tillögunni segir að þetta yrði fullkomin brúðargjöf.

Stúlkur geta augljóslega orðið drottningar Bretlands en ekki ef þær eignast bræður. Elsti sonur er fyrstur í röðinni jafnvel þótt hann eigi sér eldri systur. Erfðareglur bresku krúnunnar eru yfir 300 ára gamlar og Vaz segir að kominn sé tími til að færa þær aðeins til nútímans.

David Cameron forsætisráðherra hefur ekki lagst gegn breytingum en segir að þær verði flóknar og erfiðar. Meðal annars þarf að fá samþykki allra ríkja Breska samveldisins þar sem konungur/drottning Bretlands er þjóðhöfðingi. Þau ríki eru 52 talsins.

Vilhjálmur og Kate verða gefin saman 29. apríl næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×