Innlent

Vantar 40 dagforeldra í Reykjavík

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Það vantar allt að 40 dagforeldra í Reykjavík.
Það vantar allt að 40 dagforeldra í Reykjavík.
Það vantar allt að 40 dagforeldra í Reykjavík um þessar mundir. Leikskólasvið Reykjavíkurborgar ákvað því að bregða á það ráð að auglýsa eftir dagforeldrum í Fréttablaðinu í dag. Ragnhildur Erla Bjarnadóttir, sviðsstjóri Leikskólasviðs, segir að þetta hafi líka verið gert í fyrra.

Ragnhildur Erla segir að auglýsingin í fyrra hafi skilað árangri. „Við fengum þá um 20 dagforeldra til starfa. Ég veit ekki hvort það var bara auglýsingin eða umfjöllunin um að það vantaði dagforeldra, en auglýsingin held ég að hafi gert líka sitt," segir Ragnhildur Erla.

Ragnhildur Erla segir að ástæðan fyrir því að auglýst sé eftir dagforeldrum sé sú að ungum börnum hafi fjölgað umtalsvert á undanförnum tveimur árum. „Núna vantar okkur töluverðan fjölda dagforeldra. Þess vegna erum við að gera þetta núna og erum að horfa til margra góðra kosta, eins og að nýta húsnæði sem Reykjavíkurborg á nú þegar," segir hún.

Ragnhildur segir að mest vanti pláss hjá dagforeldrum og í leikskólum í Vesturbæ, Miðbæ og Austurbæ, en síður í Grafarvogi og Breiðholti. Verið sé að meta stöðuna nánar í samstarfi með daggæslufulltrúum þjónustumiðstöðvanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×