Innlent

Vilja lög til að losna við Ódrjúgsháls

Þrír þingmenn hafa lagt til á Alþingi að sérstök lög verði sett til að losna við veginn um Ódrjúgsháls. Þeir staðhæfa að þetta sé brýnasta verkefni í vegagerð á Íslandi.

Áform Vegagerðarinnar um að færa Vestfjarðaveg af Ódrjúgshálsi og Hjallahálsi niður á láglendi og þvert yfir tvo firði strönduðu með dómi Hæstaréttar fyrir fimmtán mánuðum, þar sem umhverfisráðherra mátti ekki nota umferðaröryggi sem rök í umhverfismati.

Myndir flutningabílstjóra af veginum um Ódrjúgsháls gefa hugmynd um hvernig er að aka þarna um. Í myrkri og hálku að vetrarlagi er það enn hrikalegra og blá leiðbeiningaskilti ráðleggja ökumönnum að taka ekki beygjurnar nema á 20 kílómetra hraða.

Í greinargerð lagafrumvarps er staðhæft að þarna sé brýnasta verkefnið í vegamálum á Íslandi, - fyrsti flutningsmaður, Einar K. Guðfinnsson, segir þetta versta kaflann á íslenska þjóðvegakerfinu. Hann sé bæði hættulegur og verði ófær á vetrum og jafnvel ófær yfir sumartímann. Hann hrynji í rigningu og uppfylli ekki nútímakröfur.

Telja má líklegt að frumvarpið mæti andstöðu því þingmennirnir leggja til að staðið verði við fyrri áform um að leggja veginn um Teigsskóg, sem landeigendur og náttúruverndarsamtök hafa barist gegn. Einar segir það hins vegar einu færu leiðina, - útilokað sé að fara yfir hálsana og jarðgöng séu óraunhæf.

Hann kveðst ekki trúa því að menn ætli sér að skilja íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum áfram eftir í fullkominni óvissu án þess að hafa nokkra von um að úr rætist.

"Þeir sem ekki vilja fara þessa leið, þeir skulda íbúum á sunnanverðum Vestfjörðum svör við því hvaða aðrar leiðir séu færar," segir Einar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×