Innlent

Geislagleraugu í alla lögreglubíla

Lögreglan í Svíþjóð mun á næstunni fá hlífðargleraugu til að verjast leysigeislum.NordicPhotos/AFP
Lögreglan í Svíþjóð mun á næstunni fá hlífðargleraugu til að verjast leysigeislum.NordicPhotos/AFP
Sérstök sólgleraugu til varnar leysigeislum verða senn komin í alla lögreglubíla í Svíþjóð, en tilgangurinn er að verja lögregluþjóna gegn augnskaða sem getur orsakast af bláum og grænum geislum.

Í frétt á vef lögreglunnar í Svíþjóð segir að algjör sprenging hafi verið í tilfellum þar sem ráðist er á fólk með leysigeislum.

Gleraugun munu ekki aðeins verja augu lögregluþjóna gegn leysigeislum heldur eru þau einnig höggþolin.

Tvenn gleraugu verða í hverjum lögreglubíl í landinu, en landhelgisgæslan, tollgæslan og fangaverðir munu einnig geta keypt gleraugun.

Sænsk yfirvöld vinna nú markvisst gegn fjölgun leysibendla og dreifa meðal annars fræðsluefni til ferðamanna sem eru á leið úr landi, enda eru flest ljós af þessari tegund keypt utanlands.

Geislavarnir ríkisins hér á landi lögðu nýlega til, ásamt kollegum sínum í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð, að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins takmarki innflutning öflugra leysibendla og að almenn notkun þeirra verði bönnuð. - þj



Fleiri fréttir

Sjá meira


×