Innlent

Frumvarp Árna og Sigmundar mjög óvenjulegt

Róbert 
Marshall
Róbert Marshall
„Þetta er mjög óvenjulegt,“ segir Róbert Marshall, formaður allsherjarnefndar Alþingis, um frumvarp sem sjálfstæðismaðurinn Árni Johnsen og Samfylkingar­maðurinn Sigmundur Ernir Rúnarsson hafa lagt fram um að veita rússneska rithöfundinum Madinu Salamovu íslenskan ríkisborgararétt.

Salamova, sem þekkt er undir nafninu Marie Amelie, hefur búið í Noregi frá unga aldri en var fyrr í vikunni gert að yfirgefa landið og er nú komin til Rússlands.

Árni sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að frumvarpið væri lagt fram að Marie forspurðri. Haft var eftir lögmanni hennar í gær að hún kærði sig ekki um að verða íslenskur ríkisborgari.

Spurður hvort frumvarp um veitingu ríkis­borgararéttar til handa manneskju sem ekki hefur sóst eftir honum sé yfir höfuð þingtækt segist Róbert ekki vita það. „Ég verð bara að segja það alveg eins og er,“ bætir hann við. „Þetta kom mjög flatt upp á mig. Ég hef ekki rætt við þá um þetta og vil sem minnst um málið segja.“

Róbert segir venjuna að allsherjarnefnd leggi fram frumvarp um veitingu ríkisborgararéttar, og þá að undangengnum umsóknum um það til þingsins. Hann veit ekki til þess að þingmannafrumvarp um ríkisborgararétt hafi verið lagt fram áður.

Róbert tekur hins vegar fram að þingferill hans sé stuttur og hann sé því ekki sérfróður um málefnið. „Þú ættir kannski að spyrja helsta sérfræðing landsins í veitingu ríkisborgararéttar, Vigdísi Hauksdóttur.“

- sh
Alþingi alþingismenn ráðherra



Fleiri fréttir

Sjá meira


×