Innlent

Aðdáandi Erps lætur flúra andlit hans á handlegginn

Hægt er að sjá fleiri myndir af húðflúrsstofunni í myndasafninu fyrir neðan. Fréttablaðið/Vilhelm
Hægt er að sjá fleiri myndir af húðflúrsstofunni í myndasafninu fyrir neðan. Fréttablaðið/Vilhelm
„Þetta er sjúklega flott. Alveg geðveikt. Erpur verður hérna að eilífu," segir Þorgeir Gunnarsson, eldheitur aðdáandi Erps Eyvindarsonar og hljómsveitar hans, XXX Rottweiler.

Þorgeir lét húðflúra andlit rapparans Erps Eyvindarsonar, Blaz Roca, á innanverðan framhandlegg sinn í gær. Þetta er þriðja húðflúr Þorgeirs, en hann hefur komið fram ásamt Erpi undanfarnar vikur og steig fyrst á svið með honum í Sjallanum á Akureyri í desember á síðasta ári. En hvað rekur menn í að fá sér húðflúr með mynd af uppáhaldsrapparanum sínum?

„Ég er bara aðdáandi. Erpur er góður vinur minn."

Myndirðu segja að þú værir aðdáandi númer eitt?

„Ég veit það ekki. Ég er ekki týpan sem fer að grenja þegar ég sé hann. Ég er búinn að hlusta á hann síðan ég fékk fyrstu plötuna með honum og er að fara á svið með honum á föstudaginn. Við tökum nokkur lög saman."

Heldurðu að þú eigir einhvern tíma eftir að sjá eftir að hafa fengið þér húðflúrið?

„Nei."

Alveg harður á því?

„Já."

Erpur Eyvindarson, fyrirmynd húðflúrsins, er ánægður með framtak Þorgeirs. „Þetta er ljónhart - þvílíkur fagmaður," segir hann. „Það verður þvílíkt gott þegar hann er að taka lagið með mér og rífur sig úr að ofan; massaður og flúraður með tattúið. Ég er líka alveg ljónharður á þessari mynd."

Þetta er í fyrsta skipti sem aðdáandi Erps lætur húðflúra andlit hans á sig, en alþekkt er að erlendar stórstjörnur endi sem varanlegar skreytingar á líkömum fólks. „Það verða fleiri. Þetta er bara byrjunin. Þú verður kominn með svona á rassinn fljótlega."

Þorgeir kemur fram ásamt XXX Rottweiler á Sódómu á föstudaginn og fær þá húðflúrið að njóta sín.

atlifannar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×