Innlent

Brúarsmíði gengur vel

Unnið er dag og nótt við að koma upp nýrri brú yfir Múlakvísl.
Unnið er dag og nótt við að koma upp nýrri brú yfir Múlakvísl. Mynd/Frikki
Vel hefur gengið við brúarsmíðina við Múlakvísl í nótt eftir því sem Vegagerðin greinir frá í fréttatilkynningu sinni, en áætlað er að hægt verði að hleypa umferð á brúna uppúr miðri næstu viku. Þó er tekið fram að hafa verði fyrirvara á því tímamarki, meðal annars með tilliti til vatnsmagns í ánni.

Tólf staurar voru reknir niður í nótt og eru 40 metrar af brúargólfi tilbúnir. Reiknað er með að í kvöld verði sjáanlegur um 50 metrar af brú, en í heild verður brúin 150-160 metrar. Brúargólfið mun vera um fjóra metra yfir vatnsborðinu.

Einnig er unnið að bráðabirgðabrú samhliða þeirri stærri en nú er unnið að því að koma grjóti á staðinn þar sem verja þarf veg og brú að austanverðu með grjótvörðum varnargarði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×