Erlent

Heppinn að vera á klósettinu þegar skothríðin hófst

Ungur norskur maður sem var staddur í Útey síðastliðinn föstudag segir það hafa bjargað lífi sínu að hafa verið staddur á salerninu þegar skotárásin hófst. Hann náði að flýja inn á annað salerni og sat þar af sér árásina í 90 mínútur ásamt tveimur öðrum.

Átakanlegar sögur frá fórnarlömbum sem lifðu af árásina í Útey koma nú fram hver á fætur annarri. Tore Sinding Bekkedal er í hópi þeirra.

„Ég var svo heppinn að vera á klósettinu þegar skothríðin hófst. Fyrst heyrði ég hróp og köll, svo öskur og svo skothvelli. Ég hélt að einhver væri að leika sér með leikfangabyssu."

Hálftíma áður hafði hann heyrt af sprengjutilræðinu í Osló og hélt að einhver væri að grínast með skothljóðunum. Hann var nokkra stund á salerninu en fór út til að kanna ástandið.

„Ég hljóp fram á ganginn og þar lá ungur drengur í blóðpolli. Hann var særður en var enn með meðvitund. Mér var ljóst að þunnar hurðirnar stæðust ekki byssukúlur og að við værum innikróaðir ef hann kæmi aftur. Svo ég reyndi að komast út. Fyrsta hugsun mín var að fara út og reyna að synda burt."

Honum auðnaðist að komast inn á annað salerni með öðru fólki sem var á staðnum.

„Við sátum þarna inni, þrír saman, í um það bil einn og hálfan tíma og biðum eftir að lögreglan kæmi. Og þegar hún kom vorum við fluttir burt."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×