Innlent

Kom illa út úr kvótaskerðingu

Smáey. Í áhöfn Smáeyjar eru allt að sextán. Þeim sem lengstan hafa uppsagnar­frestinn hefur verið sagt upp störfum. Fréttablaðið/Óskar
Smáey. Í áhöfn Smáeyjar eru allt að sextán. Þeim sem lengstan hafa uppsagnar­frestinn hefur verið sagt upp störfum. Fréttablaðið/Óskar

Skipstjóra og tveimur stýrimönnum á ístogaranum Smáey VE 144, sem útgerðafélagið Bergur/Huginn í Vestmannaeyjum gerir út, hefur verið sagt upp störfum. Þeir eru allir með þriggja mánaða uppsagnarfrest. Tólf til sextán eru í áhöfn Smáeyjar og hefur þeim sem eftir eru verið tilkynnt að frekari uppsagnir séu fyrirhugaðar.

Þeir sem Fréttablaðið ræddi við í Vestmannaeyjum í gær sögðu skerðingu á ýsukvóta hafa komið illa við útgerðina og auka yrði hann á árinu. Að öðrum kosti kunni viðlíka breytingar að ganga yfir alla útgerð í Vestmannaeyjum. Ýsukvóti er um helmingur af aflamarki útgerðarinnar.

Eftir því sem næst verður komist stendur til að leggja Smáey eftir Sjómannadaginn í sumar og færa þá þrjá í áhöfn sem sagt hefur verið upp störfum á hin skipin, Vestmannaey og Bergey. Sömuleiðis stendur til að skipta kvóta Smáeyjar á milli skipanna.

Ekki náðist í Magnús Kristinsson, útgerðarmann og aðaleiganda Bergs/Hugins, í gær. - jab




Fleiri fréttir

Sjá meira


×