Erlent

Hetjan með handtöskuna: „Það gerði enginn neitt svo ég lamdi þá bara“

Ellilífeyrisþeginn sem lét til skarar skríða gegn skartgriparæningjum í gær hefur vakið verðskuldaða athygli í breskum miðlum í dag. Vísir greindi frá því fyrr í dag hvernig konan réðst gegn sex skartgriparæningjum með handtöskuna eina að vopni, en þeir voru vopnaðir sleggjum sem þeir notuðu til að mölva rúðurnar í versluninni. Hún náði að trufla þá við iðju sína og tefja þá nógu lengi þannig að lögreglan handsamaði einn á staðnum. Tveir aðrir voru handteknir síðar og hinna er leitað.

Daily Mail hefur nú náð tali af konunni, sem vill ekki láta nafns síns getið. Fjölmörg vitni voru að ráninu en gamla konan var sú eina sem hafði kjark til að ráðast gegn ræningjunum. Fleiri komu henni þó til aðstoðar eftir nokkra stund, þar á meðal kvikmyndatökumaðurinn sem náði atvikinu á filmu.

„Ég stóð þarna hjá og talaði við konu sem ég þekki þegar ég heyrði mikil læti. Ég leit yfir götuna og sá sex unga menn á vespum," segir gamla konan. „Fyrst hélt ég að einn þeirra hefði orðið fyrir árás hinna og ég ætlaði ekki að horfa upp á hóp manna lemja einn, svo ég ákvað að grípa inn í. Þegar ég kom nær gerði ég mér grein fyrir því að þetta var rán og á varð ég ennþá reiðari."

„Einn þeirra stakk strax af en ég náði að berja á honum með töskunni minni. Hann var næstum búinn að keyra á unga konu með barn í kerru. Hinir voru ennþá að reyna að mölva rúðurnar í búðinni. Ég veit ekkert hvað gerðist næst, ég sveiflaði bara töskunni í allar áttir," segir konan.

„Síðan reyndu þeir að flýja á vespunum sínum og ég náði nokkrum góðum höggum á einn strákinn og náði að fella hann til jarðar. Ég öskraði á fólkið sem horfði á að koma að hjálpa mér og nokkrir brugðust loks við því."

Hún segist fyrst og fremst ánægð með að lögregla skyldi ná í skottið á fjórum ræningjum og þvertekur fyrir að vera hetja. „Ég er ekki hetja og kannski var það heimskulegt af mér að blanda mér í þetta, en einhver varð að gera eitthvað."




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×