Innlent

Var 32 prósentum yfir mörkum

Píkógramm er einn billjónasti úr grammi. Lágmarkið er til vitnis um hversu alvarlegum augum díoxínmengun er litin.
Píkógramm er einn billjónasti úr grammi. Lágmarkið er til vitnis um hversu alvarlegum augum díoxínmengun er litin.
Magn díoxíns í mjólkursýni frá Efri-Engidal í Skutulsfirði var 3,98 píkógrömm í grammi af fitu (pg/g) en leyfilegt magn er þrjú píkógrömm díoxíns í hverju grammi. Mjólkursamsalan á Ísafirði lét gera mælinguna á bænum, sem stendur 1,5 kílómetra frá sorpbrennslustöðinni Funa í Skutulsfirði.

Til samanburðar hefur Matvælastofnun fengið upplýsingar í gegnum RASFF-hraðviðvörunarkerfi Evrópu um dioxínmengun í þýsku fóðri sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum. Mengunin stafar frá iðnaðarolíu sem notuð var til fóðurgerðar frá nóvember síðastliðnum og hefur fundist í svínakjöti, eggjum og alifuglum auk fóðurs. Hæsta gildi díoxíns mældist í eggjum tólf píkógrömm í hverju grammi fitu.

Á vegum Matvælastofnunar fer nú fram rannsókn á díoxíni í kjötafurðum frá kindum í Skutulsfirði og einnig verða tekin ný sýni úr mjólk og fóðurrúllum frá Efri-Engidal. Gera má ráð fyrir að mánuður líði frá því að sýnin eru send þar til niðurstöður liggja fyrir.

Haldinn var fundur á þriðjudag í stjórnskipaðri samstarfsnefnd um sóttvarnir vegna díoxín­mengunar. Samkvæmt upplýsingum frá sóttvarnalækni hafa læknar ekki orðið varir við einkenni af völdum díoxíns eða annarra eitrana meðal íbúa á Ísafirði.

- shá



Fleiri fréttir

Sjá meira


×