Innlent

Vilja gera Hvalfjörð að útivistarperlu borgarbúa

Skógræktarfélögin vilja gera Hvalfjörð að næstu útivistarperlu borgarbúa og hafa í því skyni falast eftir því að kaupa jörðina Hvammsvík af Orkuveitu Reykjavíkur.

Hartnær fjörutíu ár eru liðin frá því skógræktarfélög keyptu jörðina Fossá og hófu þar gróðursetningu trjáplantna. Árangurinn minnir á lýsingu Landnámu á skóginum í Hvalfjarðarbotni við upphaf landnáms en skógurinn þar var sagður svo stór að menn gátu smíðað úr honum hafskip.

Síðastliðinn laugardag opnaði innanríkisráðherra Fossárskóg formlega til afnota fyrir almenning um leið og Vigdísarlundur var vígður til heiðurs fyrrverandi forseta Íslands. En skógræktarmenn eiga sér stærri drauma; um stórt og samfellt svæði við innanverðan Hvalfjörð því auk Fossár eiga þeir nú og leigja jarðir í Brynjudal og vilja bæta Hvammsvík við.

Það var kannski fyrst eftir að Hvalfjarðargöngin voru opnuð, og bílaumferð létti af firðinum, sem menn fóru að átta sig á útivistargildi svæðisins.

Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, segir að þarna geti orðið gríðarlega skemmtilegt útivistarsvæði. Hvalfjörður gæti orðið næsta útivistarperla borgarbúa enda sé þar dýrleg náttúrufegurð. Á tímum hás bensínverðs sé stutt að fara upp í Hvalfjörð, hann sé við bæjardyrnar.

Hvetur Magnús ráðamenn Orkuveitu Reykjavíkur og Reykjavíkurborgar að huga að því hvort þetta geti ekki orðið mjög góður kostur.

Skógræktarmenn af öllu landinu koma saman í Grundarfirði á morgun, föstudag, til aðalfundar Skógræktarfélags Íslands sem stendur fram á sunnudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×