Innlent

Húsaleigukerfið mismunar námsmönnum

Námsmenn sem búa í námsmannaíbúðum eða heimavistum hafa rýmri rétt til húsaleigubóta en námsmenn sem leigja á almennum markaði.

Húsaleigubætur eru að meginreglu miðaðar við ákveðna fjárhæð fyrir hverja íbúð. Hins vegar hafa námsmenn sem leigja saman herbergi eða tvíbýli á námsmannagörðum rétt á fullum húsaleigubótum, hver fyrir sig, að því gefnu að þeir hafi hver gert sinn leigusamninginn. Þessi ríkari réttur námsmanna sem búa á námsmannagörðum kemur fram í 5. mgr. 7. gr. laga um húsaleigubætur, sem kom inn í lögin árið 2001.

Sem dæmi felur reglan í sér að tveir félagar sem leigja saman íbúð á almennum markaði eiga rétt á ákveðinni upphæð, t.d. 18.000 kr, sem þeir geta skipt á milli sín. Ef félagarnir hins vegar leigja sams konar íbúð á námsmannagörðum getur hvor þeirra sótt um sömu upphæð, 18.000 kr, í húsaleigubætur fyrir sig - eða samtals 36.000 kr.

„Og hvar er sanngirnin í því," spyr Elvar Rúnarsson, nemi í Fjölbrautarskólanum í Ármúla, og bætir við, „Væri ekki nær að breyta lögunum og láta regluna gilda um alla námsmenn, hvort sem þeir komast að á námsmannagörðum eða ekki?"

Uppá síðkastið hefur spunnist mikil umræða um framboð á leiguhúsnæði fyrir námsfólk. Sem stendur eru um 560 manns á biðlista hjá Félagsstofnun stúdenta, og samt er stofnunin nýbúin að úthluta íbúðum fyrir veturinn.

Elvar segist vita til þess að fólk sem leigir saman herbergi á heimavist á Verkmenntaskólanum á Akureyri fái fullar húsaleigubætur fyrir hvern leigjanda sem getur framvísað leigusamningi. „Og þess vegna svíður það að við verðum að sætta okkur við að deila upphæðinni bara því við komumst ekki á námsmannagarða," segir Elvar.

Því lítur út fyrir að ekki sitji allir námsmenn við sama borð í húsaleigubótakerfinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×