Innlent

Leiðrétting Drekaklúðurs komin á dagskrá Alþingis

Þrjú frumvörp, sem eru forsenda olíuleitarútboðs á Drekasvæðinu, hafa verið sett á dagskrá Alþingis á morgun, en þingið kemur þá saman til stutts haustsþings. Orkustofnun neyddist í sumar til að fresta útboðinu, sem átti að hefjast 1. ágúst, þar sem frumvörpin dagaði uppi á lokadögum þingsins í júní.

Málinu hefur verið lýst sem klúðri Alþingis en lagafrumvörpin höfðu áður verið afgreidd úr viðkomandi þingnefndum án ágreinings. Stjórnarandstöðuþingmaður sagði þetta hafa gerst vegna ömurlegrar verkstjórnar á störfum ríkisstjórnar og Alþingis.

Nú er vonast til að unnt verði að hefja útboðið í október, með því að opna fyrir aðgang olíufélaga að rannsóknargögnum, og að tilboð verði opnuð í apríl 2012. Það er þó háð því að Alþingi nái að samþykkja lagabreytingarnar á haustþinginu nú í september en þær lúta einkum að því að gera skattalöggjöf álitlegri til olíuleitar.

Niðurstaða fyrsta útboðsins vorið 2009 olli vonbrigðum en þá sóttu tvö olíufélög um leyfi en hættu svo bæði við. Vonir eru bundnar við að áhuginn sé nú orðinn meiri. Þannig sóttu átta olíufélög kynningarfund Orkustofnunar í Stafangri í júníbyrjun, þeirra á meðal Exxon Mobil, Conoco Philips, Statoil og Total.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×