Innlent

Hundurinn fundinn eftir hrakninga

„Skjöldur er fundinn og kominn í góðar hendur eftir mikla hrakninga," segir Gunnar Ólafsson, sem leitað hefur ákaft að hundinum Skildi, sem hann þurfti að láta frá sér vegna búferlaflutninga.

Fréttablaðið birti viðtal við Gunnar fyrr í mánuðinum, þar sem hann lýsti áhyggjum sínum af afdrifum hundsins. Gunnar hafði þá þurft að flytja í fjölbýli vegna örorku sinnar og þar var bannað að vera með hunda. Hann auglýsti eftir nýjum eiganda handa Skildi með því skilyrði að hann mætti hitta hundinn öðru hvoru enda eftirsjáin mikil. Karlmaður svaraði auglýsingunni og fékk hundinn samkvæmt þessu samkomulagi. Þegar Gunnar fór að reyna að hafa samband við manninn virtist hann hafa gufað upp, sem olli ómældum áhyggjum af afdrifum Skjaldar.

„Svo þegar þetta birtist í Fréttablaðinu stoppaði síminn hjá mér ekki," segir Gunnar. „Allir voru boðnir og búnir til að svipast um eftir Skildi og aðstoða mig við leitina að honum. Ég er öllu þessu fólki afskaplega þakklátur."

Besta símtalið sem Gunnar fékk þó var frá fjölskyldu í Njarðvíkum. Hjá henni var Skjöldur í góðu yfirlæti. Maðurinn sem upphaflega fékk hann auglýsti hann nokkru síðar gefins, að sögn Gunnars. Fólkið sem tók við Skildi þá ætlaði að láta svæfa hann þar sem hann var orðinn grindhoraður og illa til reika. Nágrannafjölskylda fólksins bað þá um að fá hundinn, sem nú er allur að hjarna við og taka gleði sína á ný. Hjá henni verður hann til frambúðar.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×