Fótbolti

Mourinho mun berjast gegn banninnu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Aitor Karanka, aðstoðarmaður Jose Mourinho hjá Real Madrid, segir að sá síðarnefndi sé allt annað en sáttur við fimm leikja bannið sem hann fékk hjá Knattspyrnusambandi Evrópu í dag.

Mourinho var rekinn af velli þegar að Real Madrid mætti Barcelona í fyrri viðureign liðanna í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í lok apríl. Hann fékk bannið fyrir hegðun sína bæði á meðan leiknum stóð og eftir hann.

Hann er þegar búinn að taka út einn leik í banni en Mourinho fékk ekki að vera á hliðarlínunni er Real Madrid mætti Barcelona í síðari viðureigninni. Barcelona komst áfram eftir samanlagðan 3-1 sigur.

Real Madrid hefur þegar tilkynnt að félagið muni áfrýja úrskurðinum.

„Mourinho ætlar að verja sig fram í það síðasta," sagði Karanka við spænska fjölmiðla. „UEFA hefur ekki enn tjáð sig um ástæður bannsins og mun Mourinho ekki tjá sig sjálfur á blaðamannafundum fyrr en það verður gert."

„Mourinho veit að hann nýtur fulls stuðnings allra hjá félaginu sem og stuðningsmanna þess."

Skemmst er að minnast þegar að Mourinho mætti á blaðamannafund en lét aðstoðarþjálfara sinn, Karanka, tala fyrir sig. Fjöldi spænskra blaðamanna gengu þá út af fundinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×