Innlent

"Börn ekki eiga heima í fangelsum“

Kristján Jóhann Matthíasson á son í fangelsi í Bretlandi.
Kristján Jóhann Matthíasson á son í fangelsi í Bretlandi.
Faðir drengs sem nú afplánar lífstíðarfangelsi á Englandi segir það enga lausn að vista unga glæpamenn með fullorðnum afbrotamönnum. Hann telur ólíklegt að ungir einstaklingar verði að ærlegum þjóðfélagsþegnum eftir slíka dvöl.

Það var árið 2007 sem Brandon Richmond komst í heimsfréttirnar ásamt fjórum breskum piltum fyrir að hafa veitt ungum manni banvæna hnífsstungu. Brandon er hálfíslenskur, sonur Kristjáns Jóhanns Matthíassonar, sem hann heimsótti haustið áður.

„Og hann var þá ekki í góðum málum, hafði verið í deilum í skólanum og var kominn í fíkniefni. Þegar ég kvaddi hann, þá kvaddi ég hann með orðunum að hann skyldi fara að taka sig á, annars biði eftir honum útsýni í gegnum rimlana," segir Kristján. Og sú varð raunin, Brandon var árið 2008 dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir verknaðinn, einungis 12 ára, með möguleika á reynslulausn eftir 16 ár. Í fyrstu var hann vistaður í unglingafangelsi, en fjórtán ára var hann fluttur yfir í fangelsi rétt hjá Ipswich sem hýsir fullorðna afbrotamenn.

"Það er hroðaleg tilhugsun. Maður náttúrulega biður fyrir því og vonar að hann verði ærlegur þjóðfélagsþegn, en ef þú ert búin að vera frá 12-13 ára til 28 ára aldurs í fangelsi út af einhverju sem þú framdir þegar þú varst á þessum aldri... líkurnar eru ekki hans megin."

Kristján hefur ekki heyrt í syni sínum frá því að hann var fluttur til Ipswich, en samband hans við fjölskyldu drengsins hefur ekki verið upp á marga fiska. Hann vonar þó hið besta og ætlar að halda ótrauður áfram að reyna að ná sambandi. Kristján segir börn ekki eiga heima í fangelsum með fullorðnum, en nokkur slík tilfelli hafa komið upp hér á landi síðustu ár. „Mér finnst þetta engin lausn, engin lausn."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×