Innlent

Sammála um að ná sem bestum samningi

Timo Summa
Timo Summa

Katrín Jakobs­dóttir menntamála­ráðherra hefur ekki áhyggjur af því að óeining við ríkisstjórnar­borðið geti tafið fyrir aðildar­viðræðum Íslands og Evrópusambandsins.

Norðlenski fréttavefurinn Vikudagur hafði á dögunum eftir Timo Summa, sendiherra ESB á Íslandi, að nú þegar styttast fer í að Íslendingar setji fram eiginleg samnings­markmið sín gæti slík óeining tafið fyrir í ferlinu. Án samstöðu innan ríkisstjórnar og á Alþingi gætu markmiðin orðið óskýr og jafnvel breytileg.

Katrín, sem situr í ráðherranefnd um Evrópumál, segir að unnið hafi verið mikið og gott undirbúnings­starf í utanríkismála­nefnd Alþingis, en á áliti þess verða markmið Íslands byggð.

„Ég held að allir séu sammála um það markmið að ná sem bestum samningi," segir Katrín.

Summa sendiherra mun hafa látið orðin falla á fyrirlestri í Háskólanum á Akureyri á fimmtudag fyrir viku og bætt við að ESB muni ekki þrýsta á um niðurstöðu, komi til fyrrgreindra tafa, enda sé Ísland að sækja um aðild að ESB og verði því að koma fram með kröfur sínar og óskir. - kóþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×