Fótbolti

Messi: 202 mörk fyrir Barcelona - 50 mörk á árinu 2011

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi stillir boltanum upp áður en hann skoraði 200. markið sitt.
Lionel Messi stillir boltanum upp áður en hann skoraði 200. markið sitt. Mynd/AFP
Þetta var svo sannarlega kvöld Lionel Messi í Meistaradeildinni en argentínski snillingurinn skoraði mark númer 200, 201 og 202 fyrir Barcelona þrátt fyrir að vera aðeins 24 ára gamall.

Lionel Messi var örlagavaldurinn í 4-0 sigri Barcelona á Viktoria Plzen en hann skoraði þrennu í leiknum og fiskaði auk þess einn leikmann tékkneska liðsins útaf með rautt spjald strax á 22. mínútu leiksins. Barcelona komst áfram í sextán liða úrslitin með þessum sigri.

Messi skoraði þarna þrennu annan leikinn í röð en þetta var jafnframt fjórða þrennan hans á tímabilinu og fjórtánda þrennan hans á ferlinum. Fyrsta markið hans Messi í leiknum var einnig mikið tímamótamark en hann varð þá aðeins annar leikmaðurinn sem nær því að skora tvö hundruð mörk fyrir Barcelona.

Það var við hæfi að Messi hafi skorað 200. markið sitt fyrir Barcelona í 200. leik Barca undir stjórn Pep Guardiola. Messi hefur nú skorað 202 mörk í 286 leikjum fyrir félagið þar af 22 mörk í 18 leikjum á þessu tímabili.

Messi náði líka að skora sitt fimmtugasta mark á árinu 2011 í kvöld en hann hefur skorað 47 þeirra fyrir Barcelona og 3 fyrir argentínska landsliðið.

Messi er líka búinn að skora 42 mörk í Meistaradeildinni og er nú kominn upp í níunda sætið á listan yfir flest mörk í bestu deild í heimi.

Síðasta mark Messi í kvöld var einnig 500. markið sem Barcelona skorar í þessum 200. leikjum undir stjórn Guardiola. Messi hefur skorað 160 af þessum mörkum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×