Innlent

Hópavinna: 54 hugmyndir á vinnslustigi

Dagur B. Eggertsson opnaði fundinn í morgun
Dagur B. Eggertsson opnaði fundinn í morgun Mynd úr safni / Anton Brink
Stjórnendur leikskóla og grunnskóla og forstöðumenn frístundastarfs í borginni ræddu fyrstu hugmyndir um sameiningu stofnana í lærdómsumhverfi reykvískra barna á fundi með borgarfulltrúum og starfsmönnum Leikskólasviðs, Menntasviðs og ÍTR í morgun.

Farið var yfir 54 hugmyndir sem enn eru á vinnslustigi í starfshópi á vegum borgarráðs, og er að greina tækifæri til að endurskipuleggja og sameina leikskóla, grunnskóla og frístundaheimili í borginni.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá leikskóla- og menntasviði borgarinnar.

Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, opnaði fundinn en því næst hófst hópavinna stjórnenda þar sem þeir ræddu fjárhagsleg og fagleg rök með og á móti þeim hugmyndunum sem eru uppi á borðinu. Þær snúa að stjórnunarlegri sameiningu leikskóla, sameiningu grunnskóla, sameiningu grunnskóla og leikskóla og að sameiginlegri yfirstjórn grunnskóla og frístundaheimila.

Rýnihópar foreldra og starfsfólks leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila hafa undanfarna daga einnig rýnt í þessar hugmyndir og sagt á þeim kost og löst.

Verið er að kostnaðargreina og rýna enn frekar hugmyndirnar með tilliti til faglegra sjónarmiða. Starfshópurinn mun skila tillögum sínum til borgarráðs fyrir lok mánaðarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×