Innlent

Fólk hugi að öllu lauslegu: Varað við ofsaveðri

Veðurstofan varar við ofsaveðri í nótt og í fyrramálið. Björgunarsveitir hvetja fólk til að vera ekki á ferli og gera viðeigandi varúðarráðstafanir.

Búast má við miklu hvassviðri og rigningu sunnan og vestan lands. Einnig verða snarpar hviður á utanverðu Kjalarnesi og eins undir Eyjafjöllum. Þá varar veður stofan við stormi norðan- og austanlands í nótt og á morgun.

Kristinn Ólafsson, framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar, segir alla sína menn vera í viðbragðsstöðu eins og ávallt í svona veðri. Reynslan sé að þakplötur muni fjúka og hvetur hann fólk til að undirbúa sig vel.

Kristinn biður fólk um að vera alls ekki á ferli á meðan stormurinn gengur yfir en veðrið verður verst í fyrramálið milli klukkan 6 og 8. Hann hvetur fólk til að huga að öllu lausu í nánasta umhverfi og loka gluggum.

„Við ítrekum alltaf við fólk að fara varlega og fylgjast með leiðbeiningum," segir Kristinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×