Innlent

Fimmföldun á gjaldi fyrir læknisvottorð

Gjald fyrir vissar tegundir læknisvottorða hefur hækkað verulega.
Fréttablaðið/Stefán
Gjald fyrir vissar tegundir læknisvottorða hefur hækkað verulega. Fréttablaðið/Stefán

Gjald fyrir vottorð vegna umsókna um örorkubætur til lífeyrissjóða hækkaði umtalsvert með nýrri gjaldskrá sem tók gildi um síðustu áramót.

Bótaþegi, sem vill ekki láta nafns síns getið, segir í samtali við Fréttablaðið að hann hafi rekið upp stór augu þegar hann endurnýjaði vottorð sitt í vikunni.

„Ég fór til heimilislæknis fyrir um tveimur vikum og pantaði hjá honum þetta vottorð. Ég sótti það svo á þriðjudag og þurfti þar að borga rúmar 10.000 krónur fyrir vottorðið. Hingað til, síðast fyrir um hálfu ári, hef ég bara þurft að borga 1.000 til 2.000 krónur fyrir þess konar vottorð," segir bótaþeginn.

Hann segir enga læknisskoðun hafa falist í umsókninni, enda sé um endurnýjun vottorðs að ræða. Þá sé gjaldið fyrir læknisheimsóknina ekki innifalið í þessari upphæð.

Í reglugerð velferðarráðneytisins, sem tók gildi í upphafi árs, segir í ákvæði um vottorð af þessu tagi að miða skuli við „hversu langan tíma það tekur lækni að gera vottorðið".

Gjaldið miðar við 3.450 krónur „fyrir hverjar byrjaðar 20 mínútur" sem læknir eyðir í að útbúa vottorðið. Má þess vegna gefa sér að það hafi tekið lækni að minnsta kosti 40 mínútur til að útbúa vottorðið fyrir viðmælanda Fréttablaðsins.

Spurður um ástæðu hækkunarinnar vísaði talmaður Sjúkratrygginga Íslands á velferðarráðuneytið.

Ekki bárust svör frá ráðuneytinu við fyrirspurn Fréttablaðsins. - þj






Fleiri fréttir

Sjá meira


×