Innlent

Gillz er opinn fyrir nýrri þáttaröð

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Gillz segist opinn fyrir nýrri þáttaröð ef þessi gengur vel. Mynd/ GVA.
Gillz segist opinn fyrir nýrri þáttaröð ef þessi gengur vel. Mynd/ GVA.
„Það rigndi inn sms-um í gær og það er alltaf jákvætt. Ef þú ert að byrja með nýjan þátt og færð engin sms að þá er það ekki jákvætt," segir Egill „Gillzenegger" Einarsson um nýja þáttinn sinn sem fór í loftið á Stöð 2 í gær. Þátturinn heitir Mannasiðir Gillz og byggir á bók sem Egill skrifaði.

Egill segir að auk smáskilaboðanna sem hann fékk hafi hann jafnframt hitt marga menn sem hafi fundist þetta fyndið og fengið mjög jákvæð viðbrögð á fésbókarsíðu sinni. Egill segir að leikstjóri þáttanna, Hannes Þór Halldórsson, eigi mikinn þátt í því hversu vel hafi tekist til. „Hann er allan sólarhringinn að vinna í þessu," segir Egill sem telur að hann hafi staðið sig mjög vel. „Það er enginn áhugamannastimpill yfir þessu hjá honum," bætir Egill við. Egill segir að fimm þættir hafi verið gerðir í þessari seríu og útilokar ekki fleiri þætti. „Næsta sería myndi þá kannski heita lífsleikni Gillz og yrði þá byggð á bók númer 2," segir Egill.

Annars segist Egill hafa í nógu að snúast þessa dagana. Hann er þessa dagana að þjálfa fólk í líkamsrækt allan liðlangann daginn. „Það er janúar og allir á Íslandi að koma sér í form þannig að ég er bara hérna í Sporthúsinu allan sólarhringinn. Ég mæti á morgnana og fer heim seint á kvöldin," segir Egill. Þess á milli vinnur Egill í útgáfu símaskrárinnar, en stutt er í að það verkefni þarf að klárast. Samið hefur verið um að Evrópumeistarar Gerplu í fimleikum verði með honum á símaskránni. „Í staðinn fyrir að hafa bara mig þarna beran á ofan ógeðslegan að þá ákvað ég að hafa fimmtán Evrópumeistara með mér með. Það lífgar aðeins upp á símaskrána," segir Egill.

Framundan hjá Agli er svo að endurgera Biblíu fallega fólksins sem hann gaf út árið 2006. „Ég var að renna yfir Biblíuna og sá að það var svo margt sem ég vildi gera betur," segir Egill sem er því búinn að ákveða hver jólabókin í ár verður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×