Innlent

Halldór J. mætir í yfirheyrslu: Það sem ég gerði var í samræmi við lög

„Ég er mættur til þess að gefa skýrslu. Á ég ekki að gefa þeim skýrslu sem við mig vilja tala," sagði Halldór J. Kristjánsson, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, þegar hann mætti til skýrslutöku hjá sérstökum saksóknara rétt fyrir klukkan tvö í dag.

Halldór kom í morgun frá Kanada, þar sem hann er búsettur, til þess að gefa skýrslu hjá sérstökum saksóknara vegna rannsóknar á meintum brotum í rekstri Landsbankans. Fyrrum meðbankastjóri hans, Sigurjón Þ. Árnason, situr í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknarinnar sem snýr að meintri markaðsmisnotkun en Sigurjón er einnig grunaður um brot á auðgunarbrotakafla almennra hegningarlaga. Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvaða réttarstöðu Halldór hefur.

Fréttamenn svifu á Halldór um leið og hann ætlaði að ganga inn til saksóknarans. Við það tækifæri sagði Halldór að hann skyldi tjá sig síðar við fjölmiðla. Hann lét þó hafa eftir sér rétt áður en hann gekk inn í húsakynni saksóknarans: „Allt sem ég hef komið nálægt hef ég gert í samræmi við lög og reglur. Það er mín skoðun."

Halldór verður í skýrslutökum í dag en Sigurjón, sem starfaði við hlið hans sem bankastjóri Landsbankans, var í skýrslutökum í sjö tíma í gær og verður yfirheyrður áfram í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×