Erlent

„Svartur kassi hefur verið settur utan um líf mitt"

Julian Assange, stofnandi Wikileaks, kom fyrir rétt í Lundúnum í dag þar sem tekist var á um framsalskröfu sænsks saksóknara sem rannsakar ásakanir tveggja kvenna á hendur honum.

Verjendur Assange halda því fram að sænskur saksóknari geti ekki farið fram á framsal. Slík beiðni þurfi samkvæmt fordæmum að koma frá æðra embætti. Þá segja þeir að ekki sé hægt að framselja Assange fyrr en hann hafi verið ákærður, en það hefur ekki verið gert.

Fari svo að Assange verði ákærður segja verjendur hans í Englandi að ekki sé hægt að tryggja að hann fái sanngjörn réttarhöld og rökstyðja það með því réttarhöld í kynferðisbrotamálum sé í Svíðþjóð, líkt og til dæmis á Íslandi, lokuð almenningi og fjölmiðlum.

Assange ávarpaði fjölmiðla í lok dags en réttarhöldunum verður framhaldið á morgun. „Við höfum búið við þau skilyrði að svartur kassi hefur verið settur utan um líf mitt. Og utan á þennan svarta kassa hefur orðið „nauðgun" verið skrifað. Ég vona að á næstu dögum munum við sjá að þessi kassi er í rauninni tómur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×