Innlent

Margfalt meiri lyfjanotkun á Íslandi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Mynd/ Getty.
Margfalt meira er notað af lyfjum við athyglisbresti með ofvirkni, eða ADHD, og þunglyndi hér á landi en í Danmörku. Þetta sýna samanburðatölur Landlæknis.

Vísir greindi frá því í síðustu viku, með tilvísun í vef Jyllands Posten, að ríflega 31 þúsund Danir taka inn lyf gegn ADHD. Það eru um tuttugufalt fleiri en fyrir 12 árum síðan. Stór hluti þessa hóps eru unglingar undir 19 ára aldri.

Samanburður á notkun ADHD lyfja á Íslandi og í Danmörku. Mynd/ Landlæknir.
Landlæknir segir að samanburður á lyfjanotkun í þessum flokki ADHD lyfja og þunglyndislyfja hér á landi og notkun í Danmörku leiði í ljós að hér á landi er notað meira af lyfjum í báðum þessum flokkum, miðað við höfðatölu.

Landlæknir segir að menn verði seint sammála um hvað sé hæfileg lyfjaneysla, enda fari lyfjaneysla til dæmis talsvert eftir aldurssamsetningu þjóðar og fleiri atriðum sem eru mismunandi frá einni þjóð til annarrar. Börn séu hærra hlutfall íslensku þjóðarinnar en þeirrar dönsku.

Samanburður á notkun þunglyndislyfja. Mynd/ Landlæknir.
Landlæknir segir að sé ástæða fyrir Dani til að hafa áhyggur af notkuninni í þessum lyfjaflokkum sé ekki síður ástæða fyrir okkur Íslendinga að hafa áhyggjur. Landlæknisembættið og fleiri opinberar stofnanir hér á landi hafi hert eftirlit með lyfjaávísunum frá því á síðasta ári og hafið aðgerðir til að sporna við misnotkun á lyfseðilsskyldum lyfjum, þótt árangur þeirra aðgerða sé ekki enn sýnilegur í tölfræði yfir notkun lyfja á ársgrundvelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×