Erlent

Bretar vilja að ESB viðræðum við Íslendinga verði hætt

Richard Benyon.
Richard Benyon.

Sjávarútvegsráðherra Breta tók í gær undir kröfur þess efnis að Evrópusambandið hætti viðræðum við Íslendinga um aðild að ESB uns makríldeilan svokallaða leysist. Síðar dró hann í land. Málið var tekið upp á breska þinginu í gær og þar kallaði Tom Greatrex, sem fer með málefni sjávarútvegsins í skuggaráðuneyti stjórnarandstöðunnar eftir því að viðræðum um ESB aðild Íslands verði hætt þegar í stað.

Richard Benyon, sjávarútvegsráðherra ríkisstjórnarinnar kom þá í pontu og sagðist vera andstæðingi sínum hjartanlega sammála að því er fram kemur í dagblaðinu The Press and Journal.

Greatrex benti á að bann við löndun markríls úr íslenskum skipum innan sambandsins hefði lítil sem engin áhrif því nær allur afli íslenskra makrílveiðiskipa fari til landa utan ESB. „Það væri rangt að veita Íslandi inngöngu í Evrópusambandið á sama tíma og landið hefur evrópskar reglugerðir um makrílkvóta að engu og er að vinna efnahagslegar skemmdir á núverandi ríkjum sambandsins," sagði Greatrex.

Benyon sjávarútvegsráðherra kom síðar um kvöldið aftur í pontu og dró þá aðeins í land. Þá sagðist hann bjóða Íslendinga velkomna að samningaborðinu og bætti við að hann vonaðist til að hægt verði að leysa úr deiluefnum, þar á meðal makríldeilunni, í aðildarviðræðunum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×